Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir um sjávarútveg og fiskeldi

Kæra vegna ákvörðunar Fiskistofu um að veita útgerðinni Y skriflega áminningu, skv. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar

Stjórnsýslukæra

Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru, A, hdl., f.h. X., dags. 29. desember 2017, þar sem kærð er ákvörðun Fiskistofu, dags. 7. desember 2017, um að veita X. skriflega áminningu, skv. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, sbr. 24. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, vegna brots á lögum nr. 151/1996, um veiðar utan lögsögu Íslands.

Um kæruheimild gildir 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993 og er kærufrestur þrír mánuðir, sbr. 1. mgr. 27. gr. laganna.

Kröfur kæranda

Kærandi krefst þess að ákvörðun Fiskistofu, dags. 7. desember 2017, um að veita X skriflega áminningu, skv. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, sbr. 24. gr. laga nr. 116/2006, verði felld úr gildi.

Málsatvik og málsmeðferð

Í kæru er málsatvikum þannig lýst að þann 17. júlí 2017, hafi grænlenska heimastjórnin gefið út leyfi til makrílveiða fyrir skipið Y, fyrir tímabilið 1. janúar til 31. desember 2017. Í framhaldinu hafi skipið haldið til veiða í grænlenskri lögsögu og hafið veiðar þann 4. ágúst 2017. Með tölvupósti, dags 10. ágúst 2017, hafi kærandi sótt um leyfi til Fiskistofu til að stunda makrílveiðar í grænlenskri lögsögu, skv. 1. gr. reglugerðar nr. 620/2012, um takmarkanir á veiðum íslenskra skipa úr deilistofnum í lögsögu annarra ríkja ásamt því að senda tilkynningu um lok veiða og aflatilkynningu. Þann 11. ágúst 2017 hafi Fiskistofa gefið út leyfi sem heimilaði skipinu Y að stunda makrílveiðar í grænlenskri lögsögu og landa á Íslandi.

Með bréfi, dags. 17. október 2017, hafi Fiskistofa upplýst kæranda um að málið væri til meðferðar hjá Fiskistofu og hafi kæranda verið gefinn kostur á að koma fram með andmæli eða athugasemdir sem og kærandi gerði með bréfi dags. 10. nóvember 2017. Með ákvörðun, dags. 7. desember 2017, veitti Fiskistofa kæranda skriflega áminningu, skv. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, sbr. 24. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, vegna brots á lögum nr. 151/1996, um veiðar utan lögsögu Íslands.

Stjórnsýslukæra barst ráðuneytinu með bréfi, dags. 29. desember 2017, þar sem framangreind ákvörðun Fiskistofu var kærð. Í stjórnsýslukæru kemur m.a. fram að kærandi telji að skip kæranda hafi ekki verið á ólöglegum veiðum í grænlenskri lögsögu þar sem kærandi hafi haft tilskilin leyfi frá grænlenskum stjórnvöldum auk veiðiheimilda. Þá vísar kærandi einnig til þess að skipið hafi fengið útgefið leyfi til veiða í grænslenskri lögsögu frá Fiskistofu eftir að veiðunum lauk.

Með bréfi, dags. 2. janúar 2018, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Fiskistofu um stjórnsýslukæruna ásamt þeim gögnum og upplýsingum sem stofnunin taldi varða málið. Umsögn Fiskistofu barst með bréfi, dags. 24. janúar 2018, og var send kæranda með bréfi, dags. 6. febrúar 2018, og kæranda boðið að koma fram með athugasemdir við umsögn Fiskistofu. Með bréfi, dags. 16. febrúar 2018, sendi kærandi inn athugasemdir við umsögn Fiskstofu þar sem fyrri röksemdir voru áréttaðar. Ekki þótti ástæða til að senda athugasemdir kæranda til Fiskistofu og er því málið tekið til úrskurðar á grundvelli framangreindra gagna.

Málsástæður og lagarök kæranda

Í stjórnsýslukæru er vísað til þess að skipið Y hafi verið með leyfi frá grænlensku heimastjórninni, útgefið 17. júlí 2017, nr. MACxxxxxx, fyrir tímabilið frá 1. janúar til 31. desember 2017, til veiða á makríl í grænlenskri lögsögu. Skipið hafi því uppfyllt öll skilyrði til að fá úthlutað hinu sérstaka leyfi frá Fiskistofu og ekki hafi verið forsendur til annars en að veita umrætt leyfi. Jafnframt liggi fyrir að sótt hafi verið um leyfi áður en aflanum hafi verið landað í Færeyjum, sbr. tölvupóst dags. 10. ágúst 2017. Fiskistofu hafi þannig borist öll þau gögn sem skylt sé fyrir útgáfu leyfisins, skv. 1. gr. reglugerðar nr. 620/2012, um takmarkanir á veiðum íslenskra skipa úr deilistofnum í lögsögu annarra ríkja. Þá hafi Fiskistofa gefið út leyfi, dags. 11.  ágúst 2017, tilvísnr. xxx., sem heimilaði Y að veiða makríl í grænlenskri lögsögu.

Kærandi bendir á að engin tímamörk komi fram í reglugerð nr.  620/2012, um það hvenær sækja skuli um hið sérstaka leyfi enda sé eingöngu eitt hlutlægt skilyrði fyrir úthlutun leyfisins. Að mati kæranda hafi það skilyrði verið uppfyllt og því engar forsendur fyrir Fiskistofu að synja um leyfið, enda hafi Fiskistofa gefið út leyfið þann 11. ágúst 2017. Kærandi fái því ekki séð fyrir hvað áminning Fiskistofu sé þar sem skipið hafi haft heimild grænlenskra yfirvalda svo og leyfi frá Fiskistofu.

Kærandi telur að með því að veita kæranda skriflega áminningu, dags. 7. desember 2017, eftir að ákvörðun um veitingu veiðileyfisins hafi verið tekin, hafi Fiskistofa í raun afturkallað fyrri ákvörðun sína sem laut að veitingu leyfisins þann 11. ágúst 2017. Sú afturköllun hafi verið ólögmæt þar sem hvorki skilyrðum 23. gr. né 25 gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993 hafi verið fullnægt.

Þá telur kærandi að veiðar Y hafi ekki lotið íslenskri fiskveiðistjórn nema að takmörkuðu leyti. Í því samhengi vísar kærandi til  úrskurðar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins í máli Y Í því máli hafi verið deilt um hvort Fiskistofu hefði verið heimilt að innheimta veiðigjald á afla sem var veiddur í lögsögu Grænlands á grundvelli veiðileyfis frá grænlensku heimastjórninni. Í niðurstöðu ráðuneytisins hafi komið fram að veiðar skipsins í grænlenskri lögsögu lutu ekki íslenskri fiskveiðistjórn. Að mati kæranda eigi sömu sjónarmið við í þessu máli að breyttu breytanda.

Þá vísar kærandi til Hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1982 sem fullgiltur var á Íslandi 1985. Samkvæmt þeim samningi sé strandríkjum heimilt að taka sér víðfeðma efnahagslögsögu og innan hennar njóti ríki fullveldisréttar til að nýta og stjórna lífrænum auðlindum hafsins, þ.á.m. hafi ríkin einkarétt til að hagnýta, vernda og stjórna náttúruauðlindum innan efnahagslögsögunnar. Þannig séu það strandríkin sem ákveði sjálf leyfilegan afla hinna lífrænu auðlinda í efnahagslögsögu sinni. Það hafi Grænland gert og veiðileyfi Y sé byggt á því en ekki íslenskum aflaheimildum í grænlenskri lögsögu. Ábyrgð á ástandi innan fiskveiðilögsögunnar, á vexti og viðgangi fiskistofna sé því lögð á herðar strandríkis, í þessu tilfelli Grænlands. Í 4. mgr. 62. gr. samningsins komi fram að ríkisborgarar annarra ríkja, sem veiði í efnahagslögsögunni, skuli hlíta verndarráðstöfunum og öðrum skilmálum og skilyrðum sem sett séu í lög og reglur strandríkisins. Lög og reglur strandríkis skuli vera í samræmi við samninginn og slíkar reglur geti m.a. varðað veitingu leyfa fyrir veiðiskip. Skipstjórnarmenn og útgerðaraðili Y hafi því þurft að fara eftir grænlenskri fiskveiðilöggjöf þegar  makrílveiði var stunduð innan efnahagslögsögu þess ríkis. Kæranda hafi þannig verið skylt að vera með gilt leyfi frá heimastjórninni í Grænlandi sem kærandi hafi haft, sbr. veiðileyfi nr. MACxxxxxxxx.

Kærandi vísar einnig til 63. gr. samningsins þar sem segir að þegar sami stofn haldi til í efnahagslögsögu tveggja eða fleiri strandríkja, skuli þau koma sér saman nauðsynlegar ráðstafanir til að samræma og tryggja verndun þeirra stofna. Í 2. mgr. ákvæðisins sé vísað til þess þegar sami stofn heldur til í efnahagslögsögu strandríkja og á aðlægu hafsvæði skulu strandríkið og ríki sem veiða úr stofninum á aðlæga hafsvæðinu leitast við að koma sér saman um nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja verndun og þróun þessara stofna. Kærandi bendir á að ákvæðið skerðir ekki sjálfsákvörðunarrétt ríkjanna í sinni efnahagslögsögu. Yfirvöldum á Grænlandi hafi því verið heimilt að veita Y leyfi til veiða á makríl. Aflinn geti því ekki talist ólögmætur og ítrekað er að leyfi hafi fengist frá Fiskistofu vegna þessa afla þann 11. ágúst 2017.

Fram kemur í stjórnsýslukærunni að ef skylt sé að fá leyfi/heimild frá Fiskistofu áður en haldið sé til veiða innan grænlenskrar lögsögu megi ætla að íslenska ríkið sé að ganga gegn fullveldisrétti Grænlendinga, en þeir einir hafi rétt til að stjórna auðlindum innan sinnar efnahagslögsögu. Með því að setja skilyrði þess efnis að skip þurfi að hafa heimild frá Fiskistofu sé íslenska ríkið að brjóta gegn Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna sem hefur verið fullgiltur á Íslandi. Undanþága frá þessu sé það leyfi sem kærandi hafi fengið frá Fiskistofu þann 11. ágúst 2017. Tilgangur leyfisins sem veitt var, skv. 1. gr. reglugerðar nr. 620/2012, sé að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar Íslands samkvæmt úthafsveiðisamningi Sameinuðu þjóðanna sem Ísland fullgilti 14. febrúar 1997. Í iv) lið b-liðar 3. tl. 18. gr. þess samnings komi fram að fánaríkjum beri að setja reglur sem tryggja að skip sem sigla undir fána viðkomandi ríkis stundi ekki óheimilar veiðar innan lögsögu annarra ríkja. Þannig séu einu afskipti sem íslenska ríkinu sé heimilt að hafa af skipum sem veiða í lögsögu annarra ríkja að ganga úr skugga um að samningur sé til staðar um veiðarnar. Ekki sé heimilt að binda veiðarnar öðrum skilyrðum nema í þeim tilfellum sem afla sé landað á Íslandi en það hafi ekki verið í því tilviki sem hér er til skoðunar.

Málsástæður og lagarök Fiskistofu

Í umsögn Fiskistofu um stjórnsýslukæruna er bent á að það komi skýrt fram í reglugerð nr. 620/2012 að veiðar íslenskra deilistofna í lögsögum annarra ríkja séu óheimilar án sérstaks leyfis Fiskistofu. Skilyrði fyrir leyfisveitingu Fiskistofu sé að fyrir hendi séu samningar um nýtingu á viðkomandi stofni með tilheyrandi aðgangi að lögsögu þess ríkis sem um ræðir. Á heimasíðu Fiskistofu hafi verið birt tilkynning, dags. 21. júní 2017, þar sem fram hafi komið hvaða skilyrði þyrfti að uppfylla til þess að fá leyfi, hvert skyldi senda umsóknir og hvaða gögn þyrftu að fylgja með. Tilkynningin hafi komið í framhaldi af bréfi sem Fiskistofa hafi fengið frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, dags. 20. júní 2017, þar sem tilkynnt hafi verið um 16 þúsund tonna heimild til veiða af kvóta grænlenskra stjórnvalda á grundvelli sérstaks samkomulags sem gert hafi verið á fundi íslensk-grænlensku fiskveiðinefndarinnar sem haldinn hafi verið 28. febrúar til 1. mars 2017.

Fiskistofa vísar til þess að ákvæði laga nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands séu skýr um þá heimild sem ráðherra hefur til þess að leyfisbinda veiðar íslenskra skipa utan lögsögu Íslands. Fiskistofa vísar einnig í  reglu 7.2.2. bálks Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, FAO, um ábyrgar fiskveiðar sem kveður á um að ríki skuli sjá til þess að skip sem sigli undir fána þeirra stundi ekki ólöglegar veiðar innan lögsögu annarra ríkja.

Fiskistofa bendir á að í 1. gr. reglugerðar nr. 620/2012 komi skýrt fram að veiðar íslenskra skipa á deilistofnum í lögsögum annarra ríkja séu óheimilar án sérstaks leyfis Fiskistofu. Skilyrði fyrir leyfisveitingu Fiskistofu sé að fyrir hendi séu samningar um nýtingu á viðkomandi stofni með tilheyrandi aðgangi að lögsögu þess ríkis sem um ræðir. Þrátt fyrir að ekki séu tímamörk í reglugerðinni megi ætla að sækja þurfi um leyfi áður en fyrirhugaður atburður eigi sér stað svo hægt sé að meta hvort aðili fullnægi þeim kröfum sem gerðar séu. Fyrir liggi að kærandi sótti um umrætt leyfi hjá Fiskistofu eftir að veiðunum lauk og því hafði kærandi ekki leyfi Fiskistofu til að veiða í grænlenskri lögsögu þegar veiðarnar áttu sér stað. Það mat, hvort umsóknaraðili fullnægi þeim kröfum sem uppfylla þurfi til að fá tiltekið leyfi hjá Fiskistofu, sé í höndum Fiskistofu, ekki aðilanna sjálfra. 

Fiskistofa hafnar því að úrskurður ráðuneytisins í máli Y hafi fordæmisgildi í málinu. Í því máli hafi verið deilt um veiðigjöld og hvort það væri íslenska ríkisins eða hins grænlenska að leggja á veiðigjald á afla sem veiddur hafi verið innan grænlenskrar lögsögu en mál þetta fjalli um leyfi fyrir skip skráð á Íslandi til að veiða úr íslenskum deilistofni í lögsögu annars ríkis.

Fiskistofa bendir á að mál þetta varði leyfi til að veiða í grænlenskri lögsögu á grundvelli samkomulags milli Grænlands og Íslands. Ekki sé því um að ræða brot gegn fullveldisrétti Grænlands né Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna, enda kveði Hafréttarsáttmáli Sameinuðu þjóðanna á um að ríki skuli sjá til þess að skip sem sigla undir þeirra fána stundi ekki ólöglegar veiðar innan lögsögu annarra ríkja.

Rökstuðningur

I.          Kærufrestur.

Ákvörðun Fiskistofu sem kærð er í máli þessu er frá 7. desember 2017. Kæruheimild er í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og er kærufrestur þrír mánuðir skv. 27. gr. laganna. Kæra barst atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu með bréfi, dags. 28. desember 2018, telst því komin innan tilskilins frests.

II.         Leyfi, skv. 1. gr. reglugerðar nr. 620/2012, um takmarkanir á veiðum íslenskra ríkja úr deilistofnum í lögsögu annarra ríkja.

Mál þetta fjallar um makrílveiðar skipsins Y í grænlenskri lögsögu dagana 4. til 10. ágúst 2017. Fram hefur komið að skipið var með leyfi frá grænlensku heimstjórninni til að veiða makríl í grænlenskri lögsögu, útgefið 27. júlí 2017, nr. MACxxxxxx, fyrir tímabilið frá 1. janúar til 31. desember 2017. Þá hefur einnig komið fram að Fiskistofa hafi með bréfi, dags. 11. ágúst 2017, veitt skipinu heimild til veiða í grænlenskri lögsögu. Málsástæður kæranda lúta að því að veiðar Y í lögsögu Grænlands hafi ekki verið óheimilar þar sem skipið hafi verið með gilt veiðileyfi og aflaheimildir frá grænlensku heimastjórninni auk þess sem Fiskistofa hafi veitt skipinu heimild til að veiða í grænlenskri lögsögu þann 11. ágúst 2017.

Um veiðar íslenskra skipa utan lögsögu Íslands gilda lög nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands. Í 3. gr. laganna segir að ráðherra setji reglur um veiðar íslenskra skipa utan lögsögu sem nauðsynlegar séu til að fullnægja almennum skyldum Íslands til verndunar lifandi auðlindum hafsins eins og nánar sé kveðið á  um í lögum þessum. Í 2. mgr. 4. gr. laganna segir að ráðherra skuli með reglugerð binda veiðar íslenskra skipa á úthafinu sérstökum leyfum sé það nauðsynlegt vegna alþjóðlegra samningsskuldbindinga Íslands, til þess að fullnægja almennum ákvörðunum sem teknar séu með stoð í 3. gr. laganna, eða til að vernda hagsmuni Íslands að því er varðar fiskstofna sem um ræðir í 5. gr., og eru veiðar í þessum tilvikum óheimilar án slíkra leyfa. Leyfin skulu bundin þeim skilyrðum sem nauðsynleg séu. Í 3. mgr. sömu greinar segir að ákvæði 2. mgr. gildi einnig um veiðar íslenskra skipa í lögsögu annarra ríkja úr þeim stofnum sem um ræðir í 5. gr. Í 5. gr. laganna er vísað til deilistofna sem veiðast innan og utan lögsögu Íslands, íslenskra deilistofna. Þannig er ljóst að 2. mgr. sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 151/1996 gilti um makrílveiðar Y í grænlenskri lögsögu. Reglugerð nr. 620/2012, um takmarkanir á veiðum íslenskra skipa í lögsögu annarra ríkja, er sett með stoð í ákvæðinu. Í 1. gr. reglugerðarinnar segir veiðar íslenskra skipa á deilistofnum í lögsögum annarra ríkja séu óheimilar án sérstaks leyfis Fiskistofu. Skilyrði fyrir leyfisveitingu Fiskistofu sé að fyrir hendi séu samningar um nýtingu á viðkomandi stofni með tilheyrandi aðgangi að lögsögu þess ríkis sem um ræðir.

Ísland og Grænland eru bæði strandríki í makríl. Bæði löndin hafa þó staðið fyrir utan það samkomulag sem er í gildi á milli ESB, Norðmanna og Færeyja um skiptingu á aflaheimildum í makríl. Tvíhliða samningur milli Grænlands og Íslands var undirritaður á ársfundi  íslensk- grænlensku fiskveiðinefndarinnar, sem haldinn var 28. febrúar til 1. mars 2017, þar sem m.a. kom fram að íslenskum skipum væri heimilt að veiða allt að 16.000 tonnum af makríl í grænlenskri lögsögu af aflaheimildum Grænlendinga. Líkt og fram kemur í umsögn Fiskistofu sendi ráðuneytið bréf, dags. 20 júní 2017, þar sem ráðuneytið tilkynnti Fiskistofu um samninginn við grænlensk stjórnvöld. Í bréfi ráðuneytisins var vísað til reglugerðar nr. 620/2012, og stofnuninni einnig falið að auglýsa og gefa út leyfi til löndunar í samræmi við samninginn. Með auglýsingu, dags. 21. júní 2017, auglýsti Fiskistofa að á grundvelli sérstaks samkomulags við Grænland, hafi íslensk skip fengið heimild til að veiða alls 16.000 tonn af makríl í grænlenskri lögsögu til löndunar í íslenskum höfnum. Í auglýsingu Fiskistofu var vísað í reglugerð nr. 620/2012 og áréttað að veiðar íslenskra skipa á deilistofnum í lögsögu annarra ríkja væru óheimilar án sérstaks leyfis frá Fiskistofu. Fram kom einnig í auglýsingunni hvaða skilyrði skip þyrftu að uppfylla og hvaða gögn þyrftu að fylgja með umsóknum.

Ráðuneytið tekur undir með kæranda að veiðar Y á makríl í grænlenskri lögsögu voru löglegar samkvæmt grænlenskum lögum enda hafði skipið bæði veiðileyfi og aflaheimildir frá frá grænlenskum stjórnvöldum. Hins vegar verður ekki framhjá því litið að skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 151/1996, um veiðar utan lögsögu Íslands og 1. gr. reglugerðar nr. 620/2012, um takmarkanir á veiðum íslenskra skipa úr deilistofnum í lögsögu annarra ríkja, eru makrílveiðar íslenskra skipa í lögsögu Grænlands óheimilar án sérstaks leyfis frá Fiskistofu. Í því felst að skip skal að afla sér leyfis áður en veiðar hefjast. Það hefur ekki þýðingu í máli þessu að Fiskistofa hafi gefið út leyfi fyrir Y til að veiða í grænlenskri lögsögu þann 11. ágúst 2017 eftir að veiðum skipsins lauk. Slíkt leyfi gildir eingöngu frá útgáfudegi nema annað sé sérstaklega tekið fram í leyfinu. Þá hefur það heldur ekki þýðingu í málinu að skipið hafi fengið leyfi til að landa aflanum í Færeyjum enda kemur slíkt ekki í staðinn fyrir leyfi, skv. 1. gr. reglugerðar nr. 620/2012, um takmarkanir á veiðum íslenskra skipa úr deilistofnum í lögsögu annarra ríkja sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 151/1996 um veiðar utan lögsögu Íslands.

II.         Viðurlög.

Í ákvörðun Fiskistofu er Y veitt skrifleg áminning, skv. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, sbr. 24. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, vegna makrílveiða Y í grænlenskri lögsögu. Veiðar skipsins vörðuðu við 3. mgr. 4. gr. laga nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands sem og 1. gr. reglugerðar nr. 620/2012, um takmarkanir á veiðum íslenskra skipa úr deilistofnum í lögsögu annarra ríkja. Í 2. mgr. 14. gr. laga nr. 151/1996, um veiðar utan lögsögu Íslands er fjallað um þau stjórnsýsluviðurlög sem heimilt er að beita vegna brota á lögunum. Í ákvæðinu segir að Fiskistofa skuli svipta lögaðila leyfi til veiða fyrir brot á þessum lögum eftir því sem nánar er mælt fyrir um í lögum um umgengni um nytjastofna sjávar. Ákvæðið mælir ekki fyrir um heimild Fiskistofu til að veita útgerðaraðila áminningu og þrátt fyrir tilvísun til laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar fær ráðuneytið ekki séð að hægt sé að beita öðrum viðurlögum en þeim sem mælt er fyrir um í lögum 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands vegna brota á ákvæðum þeirra laga. Af þeirri ástæðu telur ráðuneytið að Fiskistofu hafi skort lagaheimild til að beita áminningu í málinu og fellir ákvörðun Fiskistofu, dags. 7. desember 2017, um að veita útgerðinni Y skriflega áminningu, skv. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, sbr. 24. gr. 116/2006, um stjórn fiskveiða úr gildi.

Úrskurður

Ráðuneytið fellir ákvörðun Fiskistofu, dags. 7. desember 2017, um að veita útgerðinni Y skriflega áminningu, skv. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, úr gildi.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum